Hugsanir Baunans

25 ára eyjadama sem býr í Kaupmannahöfn um þessar mundir og les talmeinafræði við Kaupmannahafnarháskóla.

fimmtudagur, september 18, 2008

Köbenlíf...

Jæja lesendur góðir þá er víst íslenska sumarið á endan og Rannslan snúin aftur til Köben, en þó karlmannslaus.... Jamm Atli verður víst heima á Klaka þessa önnina að vinna og Rannslan því dönnuð, dönsk grasekkja fram að jólum... En best að hætta þessu væli, ekkert gaman að velta sér uppúr því.
Síðan Rannslan kom til Köben hefur nú ýmislegt gerst, skólinn byrjaður á fullu og líst mér bara nokkuð vel á komandi önn sem mun snúast um heyrnarfræði og lestur, nokkuð spennandi fög þar á ferð. Einnig hefur mikið verið að gera í matarboðum og hittingi, þessar fáu íslensku hræður sem Rannslan þekkir og eru eftir hér í Köben hafa verið ansi duglegar að púkka uppá dönnuðu grasekkjuna með ýmiskonar uppákomum. Þar ber helst að nefna Hildi frænku og Kristínu skólafélaga, matarboð, búðarferðir hafa verið nokkuð tíðar síðustu daga, Rönnslunni til mikillar ánægju ;o)


Síðustu helgi komu svo hinar heimsfrægu Skonsur (vinkonuhópurinn minn) hingað til Köbenhavn. Þær gistu á gamla góða Saga hótel og ákvað ég að slá til og gista bara með þeim yfir helgina þar sem maður býr í svoddan útnára hér í Herlev, ekkert gaman að vera skrölta ein heim hvert einasta kvöld... Þessi ferð þeirra skonsa heppnaðist með miklum ágætum, strikið og Köbmagergade þræddar upp og niður, þó ekki hafi verið verslað nein ósköp enda blessað gengið í hæstu hæðum.

Smá sýnishorn úr verslunarleiðangri...þreyttar skonsur ;o)

Barir borgarinnar voru auðvitað einnig þræddir og athugað hvort nokkuð væri athugavert við bjórinn og kokteilana, svo virtist þó ekki vera eins og meðfylgjandi mynd sýnir :o)





Á sunnudeginum var svo skellt sér í hámenningarlega túristaferð í Cristjaníu þar sem að allar búðir borgarinnar voru lokaðar. Skonsurnar voru yfir sig hrifnar af fríríkinu og var mikið skoðað, en þó ekki fjárfest í neinu...

Drollurnar flugu síðan heim á leið á sunnudagskvöld og Rannslan hélt þreytt og ánægð upp í sveitina í Herlev, alveg búin á því eftir mjög svo annasama helgi.

Svo er það bara skólalíf þessa dagana hér í Köben, einnig er Rannslan duglega að telja niður í 17. október, en þá ætlar Atli að heiðra grasekkjuna með nærveru sinni í rúmlega heila viku!! Ekki nema 29 dagar eftir :o)

Ætla að skella nokkrum myndum inn í Almbúm hér til hægri á síðunni, en held ég hafi ekki nennu í það í kvöld, kemur inn á allra næstu dögum. Þess skal getið að ég gerðist svo kræf að stela þessum myndum hjá þeim yfirskonsum Dröfn og Hjördísi þar sem að myndavélin okkar Atla er heima á Klaka. Vonum að þær fyrirgefi mér stuldinn ógurlega...

Segjum þetta gott í bili af fréttum úr Köben, vonandi líður ekki of langur tími þar til næsta fréttaskot kemur inn ;o)

Ein settleg og fín af okkur Hjördísi, svo ég standi nú undir nafni sem DANNAÐA grasekkjan í Köbenhavn.